Leiguskilmálar

Leiguskilmálar

ALMENNIR SKILMÁLAR LANGTÍMALEIGU BIFREIÐA

 

 1. gr. LANGTÍMALEIGUSAMNINGUR

Leigutaki samþykkir eftirfarandi skilmála leigusamnings vegna langtímaleigu á bifreið(um) frá Bílaleigu Kynnisferða ehf. (leigusala). Leigutaki hefur kynnt sér leigusamninginn og neðangreinda skilmála og gætir þess að aðrir skráðir ökumenn geri slíkt hið sama. Leigusamningur er útgefinn í tveimur samhljóða eintökum, annað fyrir leigusala og hitt fyrir leigutaka, og skal hann undirritaður af báðum aðilum, leigusala og leigutaka. Um leigu er að ræða í skilningi laga um leigu skráningarskyldra ökutækja nr. 65 frá 2015.

 

 1. gr. GREIÐSLUR OG KOSTNAÐUR

Leiguverð skal greiðast fyrir einn mánuð í senn og skal það greitt við upphaf hvers mánaðar. Sé fyrsti mánuður leigutímans ekki heill mánuður getur leigusali gjaldfært leigugjald vegna þess mánaðar með næsta heila mánuði þar á eftir. Umsamið leiguverð er gjaldfært á kreditkort leigutaka í byrjun hvers leigutímabils, sem og allur aukakostnaður sem sannarlega er á ábyrgð leigutaka. Fyrirtæki geta sótt um reikningsviðskipti sem sérstaklega er samið um í hvert skipti.

Innifalið í leiguverði er umsaminn akstur á samningstíma, bifreiðagjöld, lögboðnar tryggingar ásamt kaskótryggingu með sjálfsábyrgð, dekk, dekkjaskipti, smurþjónusta, reglubundnar þjónustuskoðanir og hefðbundið viðhald sem myndast við eðlilega notkun, s.s. slit (bremsur, perur, þurrkur o.s.frv.). Undanskilið er viðhald vegna óeðlilegs slits eða slæmrar meðferðar ökutækisins.

Leigutaki ber ábyrgð á greiðslu annar gjalda en þeirra sem áður getur, svo sem eins og stöðu- og lögreglusekta, sjálfsábyrgðar vegna tjóna, vegagjöld o.s.frv. Leigusali áskilur sér rétt til að gjaldfæra á greiðslukort leigutaka allan kostnað sem hann verður fyrir vegna slíkra gjalda og stendur sá réttur óhaggaður í sex mánuði eftir að ökutæki hefur verið skilað.

Leigutaki skal upplýsa leigusala án tafar með tryggilegum hætti um bilanir, galla eða annað það sem þarfnast viðhalds á ökutækinu.  Tilkynningar skulu vera skriflegar, annað hvort með tölvupósti eða ábyrgðarbréfi, stíluð á starfstöð leigusala. Leigusali á endurkröfurétt á hendur leigutaka vegna alls kostnaðar sem hann verður fyrir vegna leyndra galla, bilana eða vanhirðu sem leigutaki vissi af eða hefði mátt vita af, en lét ekki vita um við skil á bifreiðinni. Leigutaki ber ábyrgð á því að upplýsa leigusala um réttar greiðslukortaupplýsingar hverju sinni. Ef breytingar verða á greiðslukortaupplýsingum leigutaka ber honum að gefa upp nýjar upplýsingar eins fljótt og auðið er á samningstímanum, aldrei síðar en fyrir næstu mánaðarmót þar á eftir. Geti leigusali ekki skuldfært leigugjald eða önnur tilfallandi gjöld af greiðslukorti leigutaka, ber leigutaki allan kostnað af þeim innheimtuúrræðum sem leigusali kýs að beita í þeim tilfellum.       

Leiguverð og sjálfsáhætta vegna tjóna samninga lengri en 12 mánaða verða uppreiknuð miðað við breytingar á vísitölu neysluverðs til verðtryggingar á 12 mánaða fresti frá útgáfudegi samnings.

 

 1. gr. VANEFNDIR LEIGUTAKA

Ljáist leigutaka að standa við skyldur sínar um greiðslur og greiðslutilhögun á umsömdum gjalddögum samkvæmt ákvæðum samnings þessa, skal hann greiða dráttarvexti af hinni vangoldnu fjárhæð frá gjalddaga, ásamt öllum kostnaði sem af slíku hlýst, t.am. innheimtu-, lögfræði- og málskostnaði. Dráttarvextir miðast við ákvæði laga nr. 38 frá 2001 um vexti og verðtryggingu með síðari breytingum. Fara stig dráttarvaxta eftir ákvörðun Seðlabanka Íslands á hverjum tíma um grunn dráttarvaxta og vanefndaálags. Vaxtavextir reiknast á 12 mánaða fresti.

Séu vanefndir leigutaka orðnar verulegar, hvað varðar viðhald og umhirðu ökutækis, greiðslur leigugjalds eða aðrar skyldur leigutaka samkvæmt leigusamningnum hefur leigusali heimild til þess að rifta samningnum, sbr. ákvæði 7. gr. samnings þessa.

 

 1. gr. AFNOT OG MEÐFERÐ HINS LEIGÐA

Leigutaki sjálfur, eða prókúruhafi leigutaka, ef um fyrirtæki er að ræða, skal hafa gilt ökuskírteini í sínu nafni og framvísa við undirskrift leigusamnings, eða tilgreina ökumann. Tilgreindum ökumanni er einum heimilt að aka bifreiðinni á leigutímanum, nema að um annað sé sérstaklega samið. Leigutaki ber ábyrgð á hinu leigða frá afhendingu og til þess tíma þegar því hefur verið skilað.         

Leigutaki skuldbindur sig til að fylgja leiðbeiningum þjónustubókar, sem fylgir hinu leigða, um meðferð og viðhald á hinu leigða. Allt viðhald á hinu leigða skal fara fram hjá viðurkenndum aðilum sem leigusali tilnefnir.        

Allt framsala á hinu leigða, afnot af því eða afhending, er óheimilt á meðan samningur er í gildi, nema með fyrirfram gefnu skriflegu samþykki leigusala. Breytingar á hinu leigða eru óheimilar. Ekki er leyfilegt að flytja hið leigða úr landi án samþykkis leigusala. Ekki má nota hið leigða til dráttar á kerrum, hjól- og fellhýsum og svo framvegis.

Leigutaki veitir leigusala óskorðaðan aðgang að starfsstöð, heimili eða starfssvæði leigutaka til að skoða hið leigða. Leigutaki má ekki breyta, veðsetja eða leyfa aðför að hinu leigða.

 

 1. gr. SKIL Á HINU LEIGÐA

Langtímaleigusamningur þessi er tímabundinn og óuppsegjanlegur. Leigutaki getur ekki skilað hinu leigða fyrr en í lok leigutíma. Standi leigutaki hins vegar ekki við ákvæði 2. gr. um greiðslur eða riftunarákvæði skv.  7.gr.  verða virk, getur leigusali krafist þess að leigutaki skili hinu leigða. Skulu skil eiga sér stað á tilskildum tíma miðað við ákvæði leigusamnings nema að um annað sé samið.       

 Skil eru talin hafa átt sér stað þegar leigutaki hefur skilað hinu leigða á starfsstöð leigusala og leigusali skráð ökutækið móttekið í kerfi sínu, en slíkt getur eingöngu átt sér stað á opnunartíma starfstöðvar leigusala. Skili leigutaki ekki hinu leigðu á réttum tíma er leigusala eða yfirvöldum heimilt að taka hið leigða í sína vörslu án frekari fyrirvara. Beri leigusali einhvern kostnað af því að hinu leigða er ekki skilað með réttum hætti, á réttum tíma, á réttan stað, skal leigutaki skuldbundinn til að greiða þann kostnað skv. ákvæðum 2. gr.    

Leigutaki skal skila ökutækinu óskemmdu og í viðunandi ástandi miðað við eðlilega notkun þess. Öllum fylgihlutum hins leigða, hjólbörðum, verkfærum og þess háttar, skal skilað í sama ásigkomulagi og það var við afhendingu að teknu tilliti til eðlilegs slits vegna notkunar. Við skil skal hið leigða hafa fullan eldsneytisgeymi af eldsneyti. Skráningaskírteini, þjónustu-, smur- og notendahandbók skal fylgja hinu leigða við skil, sem og lyklar og allur sá aukabúnaður sem tilgreindur er í samningi. Sömu dekk eða samskonar skulu fylgja þegar hinu leigða er skilað og voru til staðar við upphaf leigutíma.

Hinu leigða skal skila hreinu. Sé hreinlæti bifreiðar ábótavant eða ummerki um reykingar eða dýrahald áskilur leigusali sér rétt til að innheimta sérstakt þrifagjald skv. gjaldskrá sem liggur fyrir á starfsstöð leigusala.

Allar vanefndir á skilum, skemmdir, þrif eða brot á fyrrnefndum ákvæðum skylda leigutaka til greiðslu þeirra útgjalda leigusala sem slíkt hefur í för með sér og skulu slík gjöld gjaldfærð skv. ákvæðum 2. gr.    

 

 1. gr. TJÓN Á HINU LEIGÐA

Verði tjón á hinu leigða skuldbindur leigutaki sig til að tilkynna leigusala um það án tafar, með tryggilegum hætti, í gegnum tölvupóst eða með ábyrgðabréfi. Leigutaki skuldbindur sig jafnframt til að láta lögreglu eða árekstrarþjónustu vita tafarlaust þegar tjón hefur átt sér stað og má ekki yfirgefa slysstað fyrr en tilgreindir aðilar hafa sannarlega mætt á staðinn. Leigutaki skal tafarlaust fylla út tjónaskýrslur ef um tjón er að ræða. Ef þessum ofangreindu skuldbindingum er ekki fyllt ber leigutaki sjálfur fulla ábyrgð á tjóni.

Leigusali metur hvort viðgerð skuli eða geti farið fram og þá tímamörk í því samhengi einnig. Beri leigutaki enga ábyrgð á tjóni skal leigusali útvega annað ökutæki sem kemur í stað þess sem varð fyrir tjóni. Ef það er mat leigusala að viðgerð skuli fara fram á hinu leigða í kjölfar tjóns, er leigusala heimilt að úthluta því ökutæki aftur til leigutaka að viðgerð lokinni. Beri leigutaki sjálfur ábyrgð á tjóni er það alfarið mat leigusala hvort annað ökutæki komi í stað þess sem varð fyrir tjóni, leigutaki ber jafnframt allan kostnað við flutning á hinu leigða sé hann valdur að tjóni, fer það gjald eftir gjaldskrá leigutaka. Ef tjón á hinu leigða er á ábyrgð leigutaka og annað ökutæki kemur ekki í stað þess sem varð fyrir tjóni, ber leigutaka að standa við skyldur sínar samkvæmt samningi um greiðslur út samningstímabilið. Beri leigutaki ábyrgð á tjóni og bifreið reynist ónýt, getur leigusali þá samstundist rift samningi m.t.t. 7. gr. Liggi fyrir að tjón verði bætt skv. ákvæðum leigusamnings og kaskótryggingu á leigutaki rétt á öðru ökutæki í stað þess leigða þar til viðgerð hefur farið fram.

 

 1. gr. RIFTUN

Hafi leigutaki verulega vanefnt skyldur sínar samkvæmt samningi þessum og leigusala er ekki um að kenna, hefur leigusali rétt til þess að rifta samningnum. Leigusali skal senda leigutaka skriflega áskorun um að greiða gjaldfallna leigu eða inna af hendi aðrar skyldur samkvæmt samningnum innan ákveðins frests. Verði þeirri áskorun ekki sinnt af hálfu leigutaka lýsir leigusali yfir riftun. Skal leigutaki þá skila hinu leigða á starfsstöð leigusala á opnunartíma í samræmi við ákvæði 5. gr. samningsins. Skili leigutaki ekki hinu leigðu á réttum tíma er leigusala heimilt að taka hið leigða í sína vörslu án frekari fyrirvara. Beri leigusali einhvern kostnað af því að hinu leigða er ekki skilað með réttum hætti, á réttum tíma, á réttan stað, skal leigutaki skuldbundinn til að greiða þann kostnað skv. ákvæðum 2. gr. Leigutaki ber einnig skyldu til þess að greiða leigusala hvert það tjón sem leiðir beint af vanefndum leigutaka og skal greiða þann kostnað skv. ákvæðum 2. gr.

Jafnframt, komi það í ljós við ástandsskoðun eftir skil ökutækis að ökutæki þarfnast viðgerðar sem er umfram það sem getur talist eðlilegt slit, skal leigutaki skuldbundinn til þess að greiða þann kostnað skv. ákvæðum 2. gr. leigusamnings þessa.

Ennfremur, í kjölfar riftunar getur leigusali átt rétt á bótum úr hendi leigutaka sem jafngilda leigugreiðslum til allt að lokum leigutímans, eða þar til ökutæki kemst aftur í útleigu. Skal leigutaki greiða þann kostnað skv. ákvæðum 2. gr. þessa samnings.

 

 1. gr. VÁTRYGGINGAR

Innifalið í leigugjaldi eru lögboðnar ökutækjatryggingar, þ.e. ábyrgðartrygging, slysatrygging ökumanns og eiganda ásamt kaskótryggingu með eigin áhættu skv. verðskrá sem leigutaki hefur kynnt sér. Um tryggingar gilda skilmálar tryggingafélags leigusala sem leigutaki hefur kynnt sér. Upphæð ábyrgðartryggingar gagnvart þriðja aðila fer eftir íslenskum lögum hverju sinni.

Fáist tjón á hinu leigða ekki bætt úr kaskótryggingu eða úr hendi þriðja aðila, þ.m.t. ábyrgðartryggingu, ber leigutaki fulla ábyrgð á því tjóni sem verður á ökutækinu sem getur numið allt að fullu verði hins leigða. Leigutaki ber að fullu ábyrgð á því tjóni, og afleiddum kostnaði, sem hann veldur sjálfur og fer upphæð slíkrar ábyrgðar eftir verðmati leigusala.

 

 1. gr. ALMENN ÁKVÆÐI

Með undirritun sinni á leigusamning og leiguskilmála samþykkir og staðfestir leigutaki að hafa tekið við hinu leigða og fylgihlutum þess í góðu og ásættanlegu ásigkomulagi. Leigusamningur og leiguskilmálar skulu ávallt vera til staðar í hinu leigða á meðan á leigutíma stendur. Breytingar á leigusamningi eða leiguskilmálum má einungis gera með skriflegum viðauka, undirrituðum af samningsaðilum. Leigutaka er óheimilt að framselja rétt sinn samkvæmt samningi eða skilmálum þessum nema með fyrirfram gefnu skriflegu samþykki leigusala. Slíkt framsal getur þó ekki skert réttindi leigusala.

 

 1. gr. FJÁRHAGSSTAÐA LEIGUTAKA

Með undirritun sinni við samning þennan heimilar leigutaki Bílaleigu Kynnisferða ehf. að kanna með ítarlegum hætti bankaviðskipti hans og leita upplýsinga vegna skuldastöðu til Creditinfo Lánstrausts hf. eða sambærilegs aðila við umsókn og á gildistíma samningsins. Jafnframt heimilar leigutaki að Bílaleiga Kynnisferða ehf. tilkynni vanskil sem varað hafa lengur en 40 daga til Creditinfo Lánstrausts hf. eða sambærilegs aðila til skráningar á skrá yfir vanskil o. fl.

 

 1. gr. VARNARÞING

Komi upp ágreiningur um túlkun eða framkvæmd samnings þessa munu aðilar leitast við að leysa þann ágreining með samkomulagi. Náist ekki samkomulag um úrlausn ágreinings skal dómsmál vera rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.